Samgöngur

Nú er Menningarnótt á næsta leiti og undirbúningur stendur sem hæst. Það stefnir í fjölbreytta og skemmtilega dagskrá sem borgarbúar leggja mikið á sig við að skapa saman.

Af öryggisástæðum er miðborgin lokuð fyrir akandi umferð á Menningarnótt.

Taka lokanirnar gildi kl. 07.00 að morgni laugardagsins 20. ágúst og áætlað er að miðbærinn verði opinn á ný fyrir bílaumferð um kl. 01.00 eftir miðnætti. Sjá nánar á hátíðarkorti https://menningarnott.is/hatidarkort-2022 . Þar má sjá hvaða götur eru lokaðar en þær eru litaðar rauðar 

Íbúum á lokunarsvæði gefst kostur á að aka út af hátíðarsvæðinu, en ley­filegur útakstur er merktur með svörtum pílum. Biðlum við til allra að aka hægt og rólega, stystu leið út af svæðinu. Til að tryggja öryggi í miðborginni verður ekki hægt að komast akandi inn á hátíðarsvæðið meðan á lokunum stendur.

Við viljum vekja athygli á því að Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram milli kl. 8.40–16.10 á Menningarnótt. Íþróttabandalag Reykjavíkur er framkvæmdaaðili hlaupsins. Frekari upplýsingar um hlaupið, hlaupleiðir og tímasetningar má ­finna á www.rmi.is.

Það er von okkar að allir leggist á eitt að skapa skemmtilega stemningu á Menningarnótt.
 

Munum að umferðalögin gilda alla daga ársins! Lögreglan mun sekta þá sem leggja ólöglega. Ökutækjum sem lagt er ólöglega og/eða hindra aðgengi lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutningamanna verða flutt burt og vistuð hjá Vöku. Er það gert til þess að tryggja aðgengi öryggisaðila ef slys ber að garði.

SKUTLUR

Leggðu fjær til að komast nær!

Sérstök skutluþjónusta Strætó verður starfrækt fyrir þá sem vilja komast hratt og örugglega inn á mitt hátíðarsvæðið.
Skutlurnar munu ganga frá kl.07:30 og fram yfir miðnættii eða þar til miðborgin hefur verið tæmd.Skutlurnar aka frá Laugardalshöll með viðkomu á stoppustöðvum strætó í Borgartúni og Hlemmi og þaðan beinustu leið upp að Hallgrímskirkju. Skutlustöðvar verða merktar. Hægt er að nálgast kort af akstursleiðum skutlu.

LEIGUBÍLAR

Leigubílar verða á fjórum stöðum í útjaðri hátíðarsvæðisins. Við Hallgrímskirkju, Skúlagötu, BSÍ og Túngötu á bílastæði við Landakotskirkju. Eftir klukkan 21:00 munu leigubílar við Skúlagötu færast yfir á BSÍ.  Akstur leigubíla um Gömlu Hringbraut er bannaður eftir kl. 22.00 á Menningarnótt og þar til miðborgin Strætó hefur lokið akstri. 

FERÐAÞJÓNUSTA FATLAÐRA

Farþegar eru vinsamlegast beðnir um að bóka ferðir með góðum fyrirvara til þess að auðvelda skipulagningu akstursins. Þar sem umferð inn í miðborgina er verulega takmörkuð þennan dag mun ferðaþjónustan hafa fjóra staði í borginni til að skila af sér og ná í farþega. Staðirnir eru eftirfarandi, við Sjávarútvegsráðuneytið við Skúlagötu, N1 Hringbraut (við hliðina á BSÍ), við Hallgrímskirkju og við Tjarnargötu 8 (bílastæði HHÍ). Vakin er athygli á því að ekki er stoppað við Ráðhúsið.Stæðin eru ekki ætluð til að leggja í heldur einungis til þess að taka á móti og skila af sér farþegum: Hægt er að panta síðustu heimferð kl. 00.00. Viðbúið er að einhver seinkun kunni að verða sökum umferðar. Við biðjum því alla um að sýna þolinmæði og skilning af þeim sökum.

Almennar upplýsingar um aðgengismál hreyfihamlaðra á Menningarnótt.

FERÐAÞJÓNUSTUAÐILAR

Til að tryggja öryggi gesta okkar er miðborgin lokuð fyrir akandi umferð frá kl 07.00 að morgni laugardagsins 20. ágúst og fram yfir flugeldasýningu. Ráðgert er að miðborgin verði greiðfær uppúr kl 01.00.

Í samráði við Samtök ferðaþjónustuaðila og viðbragðsaðila, höfum við skapað aðstöðu fyrir rútur á Menningarnótt, við Túngötu, Hallgrímskirkju og Skúlagötu. Stæðin eru ekki ætluð til þess að leggja í heldur einungis til þess að taka á móti og skila af sér farþegum. 

 • Túngata fyrir neðan Landakotskirkju: Aðstaða fyrir minni rútubíla. Aðgengi við gatnamót Túngötu og Ægisgötu. Útakstur er við Túngötu og Garðastræti og um Suðurgötu.
 • Bílastæði við Hallgrímskirkju, Eiríksgötumegin: Aðstaða fyrir minni og stærri rútubíla. Aðgengi við gatnamót Eiríksgötu og Snorrabrautar (gegnum hlið að Landsspítala). Útakstur aftur niður Eiríksgötuna, Barónsstíg, Bergþórugötu og þaðan niður á Snorrabraut.
 • Skúlagatan (vestan Olís): aðstaða fyrir stærri rútubíla. Aðgengi við gatnamót Snorrabrautar og Hverfisgötu, og niður Barónsstíg og Skúlagötu. Útakstur er sama leið tilbaka – Eftir kl. 20.00 verður lokunin við Sæbraut/Snorrabraut færð alveg upp á Kringlumýrarbraut. Greið leið verður um Borgartúnið til að komast á niður á Laugaveg og þaðan á Snorrabraut/Hverfisgötu.

Athugið, aðeins bílar vel merktir löggildu ferðaþjónustu fyrirtæki mega nýta sér þessa þjónustu sem tilgreind er hér að ofan.

Athugið, að sleppistæði nr. 1, 2, 3, 4, 5 og 6 verða óvirk á Menningarnótt frá kl. 07.00 – 01.00.

 

FRÍTT Í STRÆTÓ

Akstur strætó verður að mestu eins og aðra laugardaga, en aukavagnar verða á ferðinni.  Hefðbundið leiðakerfi verður gert óvirkt kl. 22:30 og áhersla lögð á að flytja gesti úr miðbænum frá Sæbraut við Höfða kl. 23:00. Síðustu ferðir verða kl. 01:00. 

Nárari upplýsingar um allar akstursleiðir er hægt að finna á www.straeto.is/
 

ATH, farin verður ein ferð upp á Kjalarnes kl. 00:30 frá Háholti í MOS. Allar upplýsingar má nálgast á Strætó.is og í þjónustuveri Strætó í síma: 540-2700.

BÍLASTÆÐI SÉRMERKT FYRIR FATLAÐA

Einstaklingar með P-merki fatlaðra sýnilegt í bílum sínum geta lagt þeim á þremur sérmerktum stöðum inni á hátíðarsvæðinu. 

 • Bílastæði við Tækniskólann á Skólavörðuholti (með aðgengi á gatnamótum Eiríksgötu og Snorrabrautar)
 • Bílastæði á horni Túngötu og Suðurgötu í nágrenni við Ráðhús Reykjavíkur (með aðgengi á gatnamótum Garðastrætis og Túngötu)
 • Bílastæði vestast á Skúlagötu, framan við Sjávarútvegsráðuneytið (með aðgengi á gatnamótum Barónstígs við Hverfisgötu)

BÍLASTÆÐI OG BÍLASTÆÐAHÚS

Afar skynsamlegt er að leggja bílnum í stórum og rúmgóðum stæðum í úthverfum svo sem við skóla, stóra vinnustaði eða íþróttamannvirki þar sem eru biðskýli í nálægð. Þannig kemstu auðveldlega, örugglega og ódýrt í og úr miðborginni með Strætó. Við bendum þeim sem vilja nota einkabíllinn einnig á möguleg stæði á eftirfarandi stöðum: Borgartún, Laugardalur, Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands og Grandi. Bílastæðahúsið í Borgartúni verður einnig opið til kl. 01:00 en hefðbundin gjaldskylda er þar í stæði. Hjólastæði verða staðsett í bílastæðahúsi Ráðhússins. 

REIÐHJÓL

Hægt verður að leggja og læsa reiðhjólum á eftirfarandi stöðum:

 • Bílakjallari Ráðhússins

 • Austurbæjarskóli

 • Harpa tónlistarhús

 • Tækniskólinn

Einnig eru fjölmörg reiðhjólastæði í miðborginni sjá hér á korti.

RAFSKÚTUR

Í samráði við rafskútufyrirtækin, Hopp og Zolo, verður hámarkshraðinn rafskútnanna lækkaður í miðborginni á Menningarnótt, auk þess sem aðeins verður hægt að leggja rafskútum og enda ferðir á ákveðnum svæðum í miðborginni

Rafskútusvæðin verða á eftirfarandi svæðum:

 • Við Tjarnargötu 4 (Bílastæði við Happdrætti Háskóla Íslands)

 • Við Skúlagötu 13

 • Við Spennustöðina Barónsstíg (á milli Austurbæjarskóla og Vörðuskóla)